mánudagur, 11. júní 2007

Snúruleysi


Snúran sem tengir myndavélina við tölvuna er týnd. Mömmu Jóhanns þykir það ótrúlega leiðinlegt. Þessvegna er þessi ársgamla mynd hér á blogginu en það ætti ekki að koma að sök, Jóhann er alltaf jafn sætur.

Það hefur annars margt nýtt gerst á stuttum tíma.

Jóhann er byrjaður að segja til þegar hann þarf að gera nr. 2 og þessvegna hefur verið keypt klósettseta fyrir hann. Þar situr Jóhann eins og kóngur í ríki sínu á postulínshásætinu og babblar en ekkert gerist. Samt er hann voða duglegur að segja til þegar hann er með bleyjuna.

Hann kann núna að syngja 2 laglínur í uppáhalds laginu sínu. Einnig er amma diskó búin að kenna honum eitthvað skrýtið trikk sem er á þessa leið. "dæ dí dæ dí daa" (og þá gerir hann hissa svip) og hlær eins og híena.

Jóhanni þykir langt skemmtilegast að segja hvað ljónið segir og urrar og hvæsir í tíma og ótíma. Einnig kann hann að segja hvar typpið er og bendir þangað á öllum tímum dags. Skemmtilegast er samt að vera bleyjulaus, fara í hálfan kollhnís og sjá þar sprellann með berum augum.

Jóhanni þykir sandur mjög góður og er bleyjan hans iðulega stútfull af svörtum sandi þegar hann kemur heim úr leikskólanum. Fóstrurnar segja okkur foreldrunum að honum þyki sandurinn svo ljúffengur að hann grúfir andlitinu ofaní hauginn og smjattar á. Ekki veit mamma hans Jóhanns hvaðan hann hefur þetta þar sem ekki er einusinni bökuð sandkaka á heimilinu.


Annars er allt gott að frétta. Allir duglegir að vinna og í leikskóla. Fífí (bíllinn) ákvað að gefast upp og vildi komast til læknis svo hún er núna á hressingarhæli í Hafnarfirði að láta laga í sér kúplinguna.

föstudagur, 25. maí 2007

Smá breytingar

Mamma Jóhanns var að breyta uppsetningunni smá. Núna geta allir kommentað á færslurnar okkar og því hlökkum við til að sjá hvað margir eru að skoða síðuna okkar. Og bara fyrir Hildi og Fjólu frænkur þá kemur ein mynd af Jóhanni. Hérna er hann alveg glænýr.

Einu sinni var Jóhann lítill



Núna brúkar hann bara munn og segir nei og pissar í sængina hennar mömmu sinnar!

miðvikudagur, 23. maí 2007

Pabbastrákur

Jóhann er vægast sagt mjög líkur pabba sínum. Mamman er ekkert allt of sátt við þessa þróun þar sem drengurinn var mjög líkur henni fyrir stuttu.


mánudagur, 21. maí 2007

Borðsiðir

Jóhann fékk að borða sjálfur í dag. Fyrst borðaði hann pasta og reyndi eins og hann gat að nota skeið en gafst svo upp og notaði bara fingurna. Þegar hann var búinn að klára allt pastað þá bað hann um meiri mat. Við tók bláberjajógúrt og þá var nú betra að nota skeiðina. Eftir allt saman þá varð hann ansi skítugur svo það þurfti að berhátta hann í matarstólnum og setja hann í bað. Honum þótti það sko ekkert leiðinlegt.









19 mánaða bloggari

Jóhann langar mikið til að vera með í bloggheimum smáfólksins. Því ætlar mamma hans að blogga fyrir hann um hvað það er gaman að vera til.